Atvinnurekendur leita eftir starfsfólki sem býr yfir sjálfsöryggi, frumkvæði og samskiptafærni.

 

Upplýsingasamfélag nútímans kallar á breytt viðhorf til þekkingar og færni. Atvinnurekendur leita eftir starfsfólki sem býr yfir sjálfsöryggi, frumkvæði og samskiptafærni. Þekking gefur sérfræðingum, stjórnendum í fyrirtækjum og kennurum í skólum ekki lengur sama vald og áður og nú eru gerðar kröfur til þeirra um hæfni í mannlegum samskiptum.

 

Daniel Goleman skrifaði bókina 1998, Working with Emotional Intelligence, þar sem hann fjallar um hvernig þjálfa megi starfsmenn og stjórnendur til að þeir geti betur uppfyllt þessar kröfur. Í rannsókn Goleman á 181 starfi skýrir tilfinningagreind 70% af frammistöðu en fagleg geta og vitsmunagreind virðist ekki skýra meira en 30% af mun á milli framúrskarandi einstaklinga og þeirra, sem ekki standa sig eins vel. Hlutfallið í stjórnendastörfum skýrir allt að 90% af frammistöðu í starfi.

 

Hvað er tilfinningagreind?
Tilfinningagreind er geta til að greina eigin tilfinningar og annarra ásamt getu til að hvetja sjálfan sig og stjórna eigin tilfinningum og samskiptum við annað fólk. Goleman tekur fyrir fjóra flokka tilfinningagreindar (sjá ramma) sem skýra framúrskarandi árangur í starfi.

 

Í fyrsta flokknum eru sjálfsmeðvitundarþættir: Tilfinningaleg meðvitund, nákvæmt sjálfsmat og sjálfstraust.

 

Í öðrum flokknum eru sjálfsstjórnarþættir, sem gera okkur kleift að hvetja sjálf okkur áfram og stjórna því sem við greinum hjá sjálfum okkur. Þeir eru: Sjálfsstyrkur, trúverðugleiki, samviskusemi, aðlögunarhæfni, árangursþörf og frumkvæði.

 

Í þriðja flokknum eru atriði sem lúta að félagslegri meðvitund, þ.e. að skilja og geta lesið annað fólk og samskipti. Þeir eru: Samkennd, skipulagsleg meðvitund og þjónustuvilji.

 

Í fjórða flokknum er félagsleg færni, sem gerir okkur kleift að hafa áhrif á og vinna með öðrum á árangursríkan hátt. Þættir í þessum flokki eru: Þróun annarra, leiðtogahæfileikar, áhrif, samskipti, breytingastjórnun, ágreiningsstjórnun, að mynda tengsl og samvinna.

 

 1. Að þekkja og skilja sjálfan sig
  Fyrsti hornsteinn tilfinningagreindar er sjálfsmeðvitund en hún lýtur að getu til að greina og skilja eigin tilfinningar, skap og hvatir ásamt áhrifum á aðra. Fólk með mikla sjálfsmeðvitund hefur djúpan skilning á sjálfu sér, styrkleikum, veikleikum, þörfum og hvötum. Það veit hvaða áhrif tilfinningar hafa á eigin frammistöðu. Þessir einstaklingar vita t.d. hvernig þeir bregðast við þegar þeir mæta óundirbúnir á erfiðan fund og fá á sig snúnar spurningar. Þeir geta lesið sjálfa sig og taka t.d. eftir því þegar þeir verða reiðir eða sárir. Þeir sem eru ekki meðvitaðir um eigið tilfinningalega ástand, eins og t.d. pirring og reiði, eru ekki líklegir til að geta stjórnað því.

  Sjálfsmeðvitund varðar einnig skilning á mikilvægum gildum og markmiðum. Einstaklingar með mikla sjálfsmeðvitund eru t.d. líklegir til að hafna starfi þar sem búast má við spennu milli mikilvægra persónulegra gilda eins og réttlætis og heiðarleika. Annað sem einkennir þá er að þeir geta rætt um sjálfa sig og eigin tilfinningar á nákvæman hátt sem og áhrif þeirra á eigin frammistöðu. Þeir viðurkenna mistök auðveldlega og eru opnir gagnvart vel meintri endurgjöf.
   

 2. Að geta stjórnað sjálfum sér
  Annar hornsteinn tilfinningagreindar er sjálfsstjórn eða stjórnun á tilfinningum og hvötum sem við finnum fyrir og erum meðvituð um (sjálfsmeðvitund). Fólk með litla sjálfsstjórn er líklegt til að missa stjórn á sjálfu sér, oft með ófyrirséðum afleiðingum. Sjáum til dæmis fyrir okkur flugstjóra sem fer í fýlu, stjórnamálamann sem í reiðikasti segir hluti sem eru alls ekki viðunandi eða lögreglumann sem missir stjórn á sér við handtöku. Rannsóknir á umferðarlögreglumönnum í New York benda til að sjálfsstjórn sé það sem greini að framúrskarandi umferðarlögreglumenn frá hinum. Þeir fyrstnefndu hafa róandi áhrif á aðra, geta haldið aftur af hvatvísum eigin viðbrögðum og lenda þar af leiðandi sjaldnar í aðstæðum þar sem allt fer úr böndunum.

  Tilfinningaleg sjálfsmeðvitund er nauðsynleg forsenda hinna þriggja þáttanna. Í dæmi lögregluþjónsins hér á undan myndi lögregluþjónn með mikla sjálfsmeðvitund geta lesið sitt innra ástand (reiði). Ef hann býr svo yfir mikilli sjálfsstjórn getur hann stjórnað þessum tilfinningum á áhrifaríkan hátt. Mikilvægur þáttur þess hvernig menn stjórna sjálfum sér er að geta hvatt sig áfram og komið hlutum í verk þ.e. frumkvæði og árangursþörf. Þeir sem búa yfir nægri hvatningu sýna áhuga og vilja til að ná árangri, árangursins vegna.
   

 3. Að skilja annað fólk
  Þriðji hornsteinn tilfinningagreindar er félagsleg meðvitund, þ.e. að skilja annað fólk, hvað það upplifir, hvernig því líður og hvað útskýrir hegðun þess. Mikilvægasti þátturinn í þessum flokki er samkennd (empathy). Undirstaða hennar er að þekkja tilfinningar og áhrif þeirra á eigin hegðun (sjálfsmeðvitund). Þannig fyrst skapast forsendur fyrir að geta greint og skilið viðbrögð og hegðun annarra. Einstaklingar með mikla samkennd eru líklegir til að bregðast rétt við öðru fólki og taka tillit til þeirra en samstarf gengur að stórum hluta út á einmitt þetta. Einstaklingar með litla samkennd eru líklegir til að rekast illilega á í hópum.

  Til að vera góður stjórnandi er mikilvægt að skilja og geta lesið annað fólk og vera næmur á það hvernig því líður og hvernig annað fólk bregst við ýmsum aðstæðum. Maður þarf ekki nema að horfa í kringum sig og velta því fyrir sér hvað einkennir hæfasta fólkið sem maður þekkir. Nær undantekningalaust eru það einstaklingar sem þekkja sjálfa sig nokkuð vel, eru góðir mannþekkjarar og eiga auðvelt með að vinna með fólki.
   

 4. Færni í samskiptum
  Fjórði hornsteinn tilfinningagreindar er félagsleg færni þ.e. að geta stýrt, haft áhrif á og unnið með öðrum á áhrifaríkan hátt. Þessi þáttur snýr beint að hegðun og er efsti hluti ísjakans. Án félagslegrar færni náum við ekki að láta ljós okkar skína. Goleman talar um það í bók sinni að mikilvægi samstarfshæfni fari vaxandi. Sem dæmi þá gátum við árið 1989 sjálf ráðið 75% af árangrinum. Árið 1999 var hlutfallið komið niður í 15% þ.e.a.s. 85% af árangrinum verður til í samvinnu við aðra. Þetta á sérstaklega við flóknari störf.

 

Skilgreining Daniel Goleman á tilfinningagreind er "hæfni til að greina eigin tilfinningar og annarra, hæfnin til að hvetja okkur sjálf og stjórna okkar tilfinningum og samböndum". Hann segir að forsenda fyrir uppbyggingu tilfinningagreindar sé að búa yfir sjálfsmeðvitund því aðeins þá sé hægt að ná félagslegri meðvitund og sjálfsstjórn. Ef því er náð er hægt að öðlast félagslega færni og hafa jákvæð áhrif á aðra. Það sé því ekki hægt að byrja strax á að kenna færni, heldur að fólk skilji sig sjálft og styrk sinn.

 

Mótun persónuleikans felst, ásamt líffræðilegum þáttum, í reynslu af samskiptum við aðra, margvíslegum áhrifum samfélagsins og meðvitaðri og ómeðvitaðri merkingu sem einstaklingur skynjar og nemur úr umhverfi sínu. Það er því ekki af engu sem margir þeirra sem hafa tileinkað sér fjölgreindakenningu Howards Gardner telja að sjálfsþekkingargreind og samskiptagreind séu mikilvægustu greindir mannsins, en jafnframt þær sem við höfum vanrækt mest. Í þessu samhengi má nánast setja jafnaðarmerki milli þeirra og skilgreiningar Golemans á tilfinningagreind.

 

Að mati Goleman er tilfinningagreind eiginleiki sem fólk getur þróað með sjálfu sér. Fólk getur markvisst unnið í að bæta sjálft sig og samskipti við annað fólk. Hins vegar er vitsmunaleg greind, sem prófuð er með greindarprófi, fullmótuð eftir unglingsárin og getur ekki þróast meira. Því alhæfir hann að tilfinningagreind skipti meira máli en greindarvísitala varðandi árangur í starfi og að þeir sem eru gæddir sterkri tilfinningagreind eru líklegri til að ná góðum árangri í starfi (Goleman, 1995/2000).

 

Howard Garnder setti fram fjölgreindakenninguna (theory of multiple intelligences). Hann skipti greind í sjö flokka:

 1. Málgreind

 2. Rök- og stærðfræðigreind

 3. Rýmisgreind

 4. Líkams- og hreyfigreind

 5. Tónlistargreind

 6. Samskiptagreind

 7. Sjálfsþekkingargreind

 8. Umhverfisgreind

 9. Tilvistargreind (Armstrong, 2000)

 

Í fjölgreindakenningu Gardner er ekki talað um tilfinningagreind en samskipta- og sjálfsþekkingar greindir nefnast persónugreindir, því þær fjalla um persónutengda þætti. Samskiptagreind snýst um hæfileikann til að skilja aðrar manneskjur, skynja skap þeirra, fyrirætlanir og tilfinningar. Sjálfþekkingargreindin fjallar um að þekkja sjálfan sig, bæði styrkleika og veikleika og geta notfært sér þekkinguna til framdráttar (Armstrong, 2000).

 

 1. Samskiptagreind snýst um hæfileikann til að skilja aðrar manneskjur, skynja skap þeirra, fyrirætlanir og tilfinningar (Gardner).

 2. Sjálfþekkingargreindin fjallar um að þekkja sjálfan sig, bæði styrkleika og veikleika og geta notfært sér þekkinguna til framdráttar (Armstrong, 2000)

 3. Tilfinningagreind samkvæmt Goleman er hæfni til að greina eigin tilfinningar og geta stýrt þeim ásamt því að hvetja sjálfan sig (Goleman, 1995/2000)..

 4. Tilfinningagreind felur í sér hæfni til að greina tilfinningar annarra og vera fær í samskiptum (Goleman, 1995/2000).

 5. Tilfinningagreind er hæfileikinn til að stjórna eigin og annarra tilfinningum, að greina milli þeirra og nota upplýsingarnar til að stjórna hugsunum sínum og gjörðum (Salovey og Mayer, 1990).

 

Af þessu leiðir að í dag eru til tvær skilgreiningar á tilfinningagreind.

 1. Annars vegar er það upprunalega skilgreiningin sem byggir á hæfni fólks til að skynja, greina og hagnýta tilfinningar. Fylgismenn hennar eru einkum upphafsmennirnir Mayer, Salovey ásamt fleirum. Þeir aðhyllast fræðilega nálgun og leggja upp úr því að hægt sé að nota mælingar til að sannreyna skilgreininguna.

 2. Hins vegar er það víðari skilgreining þar sem tilfinningum er blandað saman við aðra þætti, svo sem félagslega færni og persónueinkenni. Talsmenn þessarar nálgunar eru meðal annars Goleman og Bar-On (Mandall og Pherwani, 2003).

 

Tilvísun eða efni frá:
Eyþór Eðvarðsson
Soffía Sveinsdóttir
Una Björg Einarsdóttir
 

Share on Facebook
Please reload

GORDON TRAINING ICELAND

Ármúla 4-6

108 Reykjavík

Iceland

Sími 893 0014

gudmundur@gordon.is

Gordon Training International

 • Instagram Social Icon
 • Twitter Social Icon
 • Facebook Social Icon

© 2017 GORDON